28. júl. 2010

Hvað veldur?

Þegar ég lendi í ágreiningi eða einhverjum árekstrum í lífinu þá finnst mér nauðsynlegt að líta í eigin barm (sem er fljótgert í mínu tilfelli :) og skoða hvaða hvatir liggja að baki hjá mér.  Oftar en ekki er nefnilega eitthvað annað undirliggjandi sem hefur kraumað lengi, sem brýst út, stundum við lítið tilefni og þá er gott að skoða það.

Af hverju er ég að argast út í Þríþrautarsambandið og ritarann, þegar eitt af því skemmtilegasta sem ég geri er að keppa í þríþraut.  Eftir djúpa og heiðarlega sjálfsskoðun þá er niðurstaða mín sú að það er einkum tvennt sem triggerar þetta tuð í mér og þá er best að skrifta:

Á haustdögum kom til mín stjórnarmaður í Þríþrautarsambandinu (leiðrétting: þetta á að vera ÞríR  sem tilheyrir Þríþrautarsambandinu núna ef ég skil þetta rétt, ég á erfitt með að finna upplýsingar um núverandi stjórnarmenn, bæði í ÞríR og þá Þríþrautarsambandinu) og spurði hvort ég ætlaði ekki örugglega að mæta á uppskeruhátíð þríþrautarmanna.  Ég sagði, nei því miður, ég væri sama kvöld að fara á jólahlaðborð með bónda mínum og vinnufélögum hans.  Stjórnarmaðurinn horfði djúpt í augun á mér og sagði: "Það á að tilnefna þríþrautarkonu ársins og þú verður að mæta!".  Svo blikkaði hann mig.  Ég hváði, nú já, ok, verð ég að mæta...?  "Já, ekki spurning, þú verður að mæta", svaraði hann.   Ja, ég var nú búin að vinna (að mig minnir) allar þrautirnar sem ég tók þátt í (hafði reyndar misst úr nokkrar þegar ég varð ófrísk og missti síðar fóstur) og já ég var tiltölulega nýbúin að setja nýtt Íslandsmet í hálfum járnkarli, hafði bætt það um hálftíma við erfiðar aðstæður... ja, svei mér þá, jibbííí...

Ég valhoppaði heim til mín og hvíslaði þessu að manninum mínum og kannski mömmu líka.  Ég afboðaði mig á jólahlaðborðið og pantaði miða hjá Remi, um hæl.  Svo hugsaði ég ekkert meira um þetta í bili.  Eitthvað hef ég nú skynjað skrítið og mér fannst furðulegt að vera ekki látin vita formlega af þessu.  Ég hringdi þess vegna í þennan stjórnarmann sama dag og uppskeruhátíðin fór fram og spurði hann hreint út.  Ja, sko, hmmm...  Það kom svolítið uppá, sagði hann.  Það var nefnilega þannig að þegar kom að því að velja þríþrautarkonu ársins þá var stjórnin ekki sammála.  Hluti (2) vildi að ég fengi titilinn en meirihlutinn (3) vildi að sú flotta íþróttakona sem varð svo fyrir valinu fengi titilinn.  Rökstuðningurinn var að hin vel verskuldaða íþróttakona sem hlaut titilinn hafði sigrað í fleiri keppnum á tímabilinu (kepptum aldrei innbyrðis).  Það sem mér fannst sérkennilegt  var að í vali á þríþrautarmanni ársins var ákveðið að heiðra þann sem setti íslandsmet í hálfa járnkarlinum og sigraði þar, en ekki þann sem vann flestar þrautirnar.   "Og ætlaðirðu ekkert að láta mig vita?".  Ja, sko, ég má sko eiginlega ekkert tala um þetta áður en það er tilkynnt formlega...  

Já, já, ég fékk kökk í hálsinn, sendi Remi póst með afboðun og afboðaði barnapíuna líka, því mig langaði ekkert til að fara á jólahlaðborðið svona leið og svekkt.  Sennilega hef ég ekki alveg jafnað mig á þessum vonbrigðum og þess vegna auðveldara fyrir mig að gagnrýna störf þríþrautarfélaganna fyrir vikið.  Þar hafið þið það og lái mér hver sem vill.

Hin ástæðan er af öðrum toga og ennþá persónulegri.  Það var nefnilega þannig að ég las Dagbók ritarans daglega lengi vel.  Fyrir nokkrum mánuðum hætti ég alveg að lesa hana á blogg rúntinum (sem er mjög lítill hjá mér n.b.).  Og jú ég veit svo sem alveg af hverju, það var gælunafn ritarans á blautbúningnum sínum sem truflaði mig svona svakalega.  Ég man að í fyrsta sinn sem ég las það, þá brá mér verulega við.  Í annað sinn þá hugsaði ég með mér, er ég svona svakalega viðkvæm...  og eftir nokkur skipti í viðbót hætti ég bara að lesa þetta hjá honum, til að forðarst að fá hnút í magann.  Í dag sýndi ég syni mínum nokkrar af þessum færslum sem mér fannst truflandi og ræddi þetta við hann, spurði hann hvað honum fyndist eiginlega?  Er þetta fyndið?, allt í lagi?, sniðugt?...

Mamma, þetta er fáránlegt! 

En hér eru nokkur dæmi þar sem ritarinn tjáir sig um blautbúninginn sinn:
Þessi færsla....og þessi færsla, líka þessi hérna og meira að segja þessi líka.  Já svo við tölum nú ekki um þessa, þessa, þessa og þessa... já, og að lokum þessa.

Ég ætla ekki að setjast í dómarastól og skera úr um hvort þetta gælunafn sé í lagi, til þess er ég sennilega allt of tengd málinu.  Eina sem ég veit er að ég kann alls ekki við það og það hefur örugglega haft áhrif á það hversu fljótt ég stökk á tækifærið til að gagnrýna ritarann.

Mér fannst ég skulda ritaranum og Þríþrautarsambandinu skýringar og þetta er eins heiðarlegt uppgjör og ég er fær um.

Athugasemdakerfið er opið.  Ég mun engu að síður áskilja mér rétt til þess að ritskoða og hafna færslum sem innihalda einhvern óþverra!

7 ummæli:

  1. Jesús minn! Ég get ekki talað fyrir neinn nema sjálfa mig en mér finnst þetta gælunafn fyrir neðan allar hellur og er eiginlega bara sárlega móðguð!
    Held að við öll sem annað hvort eigum lituð börn eða stöndum þeim nærri séum langt því frá sátt við svona orðalag. Hef eiginlega bara ekki orð til að lýsa tilfinningunum sem fóru í gegnum skrokkinn þegar ég sá þetta :(
    Kv. ein ókunnug sem finnst gaman að fylgjast með flottum afrekum eins og þínum :)

    SvaraEyða
  2. Eva vildi bara segja að mér finnst frábært að þú segir þínar skoðanir í stað þess að kvarta út í horni og það sínir mikið hugrekki að skrifa þessa færslu hér að ofan. Áfram Eva.
    Kveðja

    Jói
    z

    SvaraEyða
  3. Ég las nýjustu færsluna þína.

    1. Þar sem þú talar um þríþrautasambandið, hlýturðu að eiga við ÞRÍR. Ég held að ÞRÍR hafi alfarið séð um þetta mál, enda var þessi uppskeruhátíð öðrum þræði aðalfundur ÞRÍR. Þríþrautasambandið var ekki stofnað fyrr en í mars á þessu ári. Að öðru leyti get ég ekkert tjáð mig um þessa kosningu, þar sem ég hafði ekki grænan grun um að svona væri í pottinn búið.

    2. Ég kalla blautbúninginn negra, því hann er svartur, Orðið þýðir svartur á rómönskum tungumálum. Þetta er nafn sem í mínum huga felur í sér ást og hlýju og alls enga kynþáttafordóma, alla vega ekki í mínum huga. Ég hef ekki einu sinni leitt hugann að því að þetta gæti sært einhvern. Svona er maður hugsunarlaus.

    SvaraEyða
  4. Hugsunarlaus ertu greinilega Gísli.

    Flottur pistill Eva.

    SvaraEyða
  5. Mér finnst alls ekkert að orðinu 'negri', þó mér sé ekki tamt að nota það. Það er eitt af þeim lýsingarorðum sem hægt er að nota til að lýsa syni mínum sem ég elska jafn mikið og lífið sjálft, ef ekki meira. Mér er tamara að nota svertingi eða svartur maður. Hann kallar sig 'brúnan'. Í mínum huga felur orðið ekki í sér neina kynþáttafordóma heldur. Mér fannst bara þín notkun á því ljót.

    SvaraEyða
  6. Sæl vinkona Eva,

    Sem núverandi formaður Þríþrautarfélags Reykjavíkur er mér skylt að svara ákveðnum atriðum í þessum pistli þínum varðandi val á Þríþrautarfólki ársins.
    Kjör stjórnar ÞRÍR á Þríþrautarfólki ársins hefur frá upphafi byggst á hvoru tveggja íþróttalegum árangri og þeim félagslegu þáttum sem okkur hefur þótt skipta máli fyrir félagið og þríþrautina sem íþrótt. Meðal þess sem við höfum miðað við og gefið nokkuð jafnt vægi má telja:
    • Þátttaka í keppnum
    • Árangur í keppnum (bæði innanlands og erlendis)
    • Þátttaka í félagsstarfinu, t.d. stjórnarseta, keppnishald og umsjón æfinga
    • Þátttaka á æfingum félagsins
    • Annað sem hefur orðið þríþraut á Íslandi til vegvirðingar
    Þannig höfum við litið á þetta val frekar sem val á félagsmanni og –konu ársins, frekar en val á besta íþróttafólkinu.
    Þar sem ÞRÍR var fyrsta, og framan af eina, þríþrautarfélag landsins þá leyfðum við okkur að titla þetta sem Þríþrautarmann og – konu ársins. Þar til á þessu ári var hvorki til Þríþrautarsamband, né nokkuð þríþrautarfélag aðili að ÍSÍ, þannig að við gáfum okkur töluvert sjálfræði um bæði titilinn og rökin fyrir valinu hverju sinni. Nú þegar Þríþrautarsamband Íslands hefur verið stofnað og þríþrautarfélög vinna að því hörðum höndum að verða aðilar að ÍSÍ geri ég ráð fyrir að kjör þríþrautarfólks ársins verði framvegis í höndum Þríþrautarsambandsins og muni líklegast byggjast meira á íþróttalegum afrekum vs félagslegum þáttum til samræmis við kjör íþróttamanna ársins í öðrum greinum innan ÍSÍ.
    Stjórn ÞRÍR mun áfram heiðra þá félagsmenn sem við teljum hafa unnið félaginu og íþróttinni mest gagn undanfarið ár út frá áðurnefndum forsendum.
    Það er leitt ef þér hafi verið gefið ranglega undir fótinn með niðurstöðu valsins fyrir árið 2009 og ég afsaka það hér með fyrir hönd félagsins og stjórnar.
    En vonandi útskýrir þetta komment mitt að valið hefur aldrei byggst eingöngu á íþróttalegum árangri heldur á þeim gildum sem ÞRÍR byggir á, semsagt eflingu þríþrautarinnar, félagsanda auk íþróttalegra afreka.
    Stjórn ÞRÍR árið 2010 skipa:
    Jens Viktor Kristjánsson, formaður
    Remi Spilliaert, gjaldkeri
    Corinna Hoffmann, ritari
    María Ögn Guðmundsdóttir
    Gylfi Guðnason

    Með þríþrautarkveðju,
    Jens

    PS. Um húmor eða húmorleysi Ritarans treysti ég mér ekki til að dæma ;)

    SvaraEyða
  7. Mér finnst Þríþrautarkona ársins 2009, María Ögn Guðmundsdóttir, vera ein flottasta íþróttakona landsins og hún á svo sannarlega þennan titil skilið. Þar fyrir utan það, þá finnst mér hún líka skemmtileg og góð manneskja.

    Það breytir því ekki að sagan hér að ofan er nákvæm lýsing á aðdragandanum eins og hann snýr að mér. Takk fyrir afsökunarbeiðnina :)

    Lélegur húmor er engin dauðasök og alveg fyrirgefanlegur eins og flest annað. Mér finnst ritarinn oftast mjög fyndinn og sérstaklega þegar hann talar um Framsóknarmenn...

    SvaraEyða